#07
SERÍA FORMA ~ Ásta Fanney Sigurðardóttir
Ásta Fanney Sigurðardóttir er skáld, tón- og myndlistarmaður sem hefur markað sér spor í fjölmörgum listformum. Ásta gaf út ljóðabókina Eilífðarnón árið 2019 og var handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2017. Hún hefur verið ötul við að sýna myndlist sína í formi gjörninga og innsetninga.
Í bókinni SERÍA FORMA vinnur Ásta með formfræði textans, bæði í töluðu og skriflegu máli, sem teygir sig yfir í minningar og myndar hugrenningatengsl við lögun myndrænna forma. Textinn birtist okkur óræður, líkt og við séum að lesa í fyrsta sinn, orð og setningar eru sundurslitin og virðast nánast framandi. Með því að bera á borð ekkert-ið, hið auða rými sem sett er inn á milli stafanna, skapast önnur sýn á orð, ljóð og hugmyndina um lestur sem eins konar skynjun. Upplestur verksins breytist í hljóðverk, lesturinn verður að þraut eða leik með okkar þátttöku, svo lengi sem við erum tilbúin að opna.